Þórdís Helgadóttir's Blog, page 3
October 7, 2018
Ilya Kaminsky
RÓSA FRÆNKA
Í hermannabúningi, í tréskóm dansaði hún
í byrjun dags og lok dags, Rósa frænka mín.
Eiginmaðurinn bjargaði ófrískri konu
úr brennandi húsi – hann heyrði hlátur,
hver dagur var með sitt litla stórskotalið – í þessum eldsvoða
brenndist hann á kynfærunum. Rósa frænka mín
tók að sér börn annars fólks – hún smellti í góm þegar þau grétu
og ágústmánuður dró tjöldin fyrir kvöld eftir kvöld.
Ég sá hana með krít á milli fingranna,
hún skrifaði glósur á auða töflu,
höndin hreyfðist og taflan var áfram auð.
Við bjuggum í borg við hafið en það var
önnur borg á hafsbotni og enginn nema heimakrakkarnir trúðu á tilvist hennar.
Hún trúið þeim. Hún hengdi mynd af eiginmanninum
á vegg í íbúðinni sinni. Hvern mánuð
á nýjan vegg. Ég sé hana enn fyrir mér með þessa mynd, hamar
í vinstri hendi, nagla uppi í sér.
Úr munninum berst lykt af villtum hvítlauk –
hún nálgast mig í náttfötunum
rífst við mig og sjálfa sig.
Kvöldin eru sönnunargögn mín, þetta kvöld
hún sökkvir höndunum í það upp að olnbogum,
kvöldið er sofandi inni í öxl hennar – öxlin
ávöl af svefni.
Þýð. Sigurður Pálsson
August 19, 2018
Keisaramörgæsir í Hve glötuð er vor æska?
Það styttist í að Keisaramörgæsir líti dagsins ljós. Ég var lengi í vafa um titilinn en þegar hann var einu sinni kominn þá var hann bara kominn og ég gat ekkert haggað honum. Mig dreymir um að vera einn af þessum höfundum sem koma með neglu-titla í hvert einasta skipti en það er eins og ég tæmi sköpunarkraftinn alltaf í textann og eigi svo ekkert eftir fyrir titilinn. Kannski er galdurinn að læra að taka titilinn alvarlega sem listaverk í sjálfum sér. En bókin heitir alla vega það sem hún heitir og á dögunum fór ég í stutt viðtal við Þorvald S. Helgason og kynnti hana í fyrsta skipti á opinberum vettvangi í þættinum Hve glötuð er vor æska? á RÚV núll.
Hér er viðtalið. Ég spjalla um bókina, formið og uppáhalds-smásagnahöfundinn minn við Þorvald og Fríðu Ísberg svikaskáld, og gef forsmekk af sögu sem heitir „Leg“. (Titill sem ég er reyndar nokkuð ánægð með.) Annar uppáhaldshöfundur, Kristín Eiríksdóttir, er líka tekin tali í þættinum. Smásögur eru kúl. Hlustið!
June 9, 2018
Vot egg
Óróinn inni í mér er eins og öldur í vöðvunum, eins og hálfur draumur. Hugurinn er farfugl sem flýgur aftur á gömlu varpstöðvarnar hvert einasta vor og endar alltaf með olíubrákaðar fjaðrir og blóðug sundfit.
Hugurinn er sjófugl með magann fullan af plasti. Hvað þykist ég vera að gera? Byggja hreiður, lokka greyið á nýja staði, plata hann til að venja komur sínar þangað sem einhverja næringu er að fá.
Á hlýrri stað, hvers vegna ekki? Í regnskóginum erum við nakin og svitablaut og heit inn að beini. Litirnir eru heitir og djúpir og veggirnir lifandi. Það er hann sem við þráum í gegnum þurrt veggfóðrið í mínímalískum íbúðum. Við höfum tekið upp á því að prenta rifblöðkur á hvaðeina. Dýfum hönd í blómapotta til að finna hvernig moldin gerist heit af örverum.
Sjálf erum við appelsínugul blóm utan um brennsluofna. Spendýrin í regnskóginum eru sífellt á ferli í leit að einhverju til að tortíma, æti. Stór pýþonslanga lætur sér duga eina máltíð á ári. Sólin klekur út eggjunum fyrir hana og þegar jörðin verður orðin ein eyðimörk pólanna á milli verður það hún sem erfir landið. Rétt eins og fyrri daginn.
March 24, 2018
Growing Season – Anne Thériault
March 23, 2018
Mold allra meginlandanna
Mamma mun sjá eftir öllu saman
við skulum éta mold allra meginlandanna
og þá sér hún eftir öllu saman þegar
við springum
Að klæða okkur í notað:
misvel farin andlit, kjagaða skó
og ódýrustu
stökkustu
beinin
Pabbi gefur okkur nýtt þegar hann kemur
segir þú
bróðir
Troðfullur af salti því þú getur ekki grátið
söngröddin þín vaggandi í Golfstraumnum
fingrafarið þitt á tunglinu en hafsbotninn
ósnertanlegur eins og gyðja
eða hóra
Mamma þín saknar þín
March 1, 2018
Óþægileg ást eftir Elenu Ferrante
[image error]
Fyrsta skáldsaga Elenu Ferrante er óþægileg, grimm, falleg, spennandi og ótrúlega safarík lesning. Við Guðrún Elsa Bragadóttir ræddum um Óþægilega ást – L’amore molesto – við Höllu Harðardóttur í Bók vikunnar á Rás 1 sunnudaginn 25. febrúar.
Hægt er að hlusta HÉR.
January 12, 2018
Ljóð í lok vikunnar: Síðan tók það skeið enda
Síðan tók það skeið enda
Véfréttin er miðaldra kona með sigin brjóst
undir blússunni, eins og alltaf
Hún ýtir sófanum frá veggnum
og smalar okkur inn, systur á eftir systur
Í keðju, handfljót vindur hún okkur
eins og naflastreng af hálsi
Inni í göngunum seytlar svartolía
Uppi brenna borpallarnir ásamt þeim
sem hlekkjuðu sig þar. Allar eru hér,
þekkjast á flúruðum kvið og sviðnum iljum
Þegar ljós kemur í opið látum við ropa
setjum kálblöð á brjóst hver annarrar
Vel heppnuð aðgerð, kortlögð í leyni
í lúsapóstum og saumaklúbbum
Heilu hillurnar í bókasöfnum heimsins
merktar fæðingarundirbúningur


