Þórdís Helgadóttir's Blog, page 2

January 24, 2021

Ljóðstafur Jóns úr Vör

Lukkuleg Þórdís Helgadóttir tók í gær við Ljóðstaf Jóns úr Vör við athöfn í Salnum í Kópavogi. „Þetta er mikill heiður,“ sagði hún, „að fá svona vegleg verðlaun fyrir stakt ljóð.“Mynd: Árni Sæberg fyrir Morgunblaðið

Fimmtudaginn 21. janúar 2021, á afmælisdegi Jóns úr Vör, tók Þórdís við Ljóðstafnum fyrir sigurljóðið Fasaskipti.

Nánar:

Þórdís Helgadóttir hlýtur Ljóðstaf Jóns úr Vör

Verðlaunaljóð um börn og vetur

Þórdís hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir Fasaskipti

LESA FASASKIPTI

2 likes ·   •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on January 24, 2021 05:27

December 1, 2020

FRÆ FYRIR NORNINA

Í samtali við Sabrinu Orah Mark





[image error] mynd: eol.org



Við erum að taka til í geymslunni þegar börnin mín finna segulbandstæki sem tekur upp hugsanir. Þau snúa því á alla kanta. Þetta er í fyrsta skipti sem þau sjá segulband. Þau spyrja hvort þau megi eiga það. Sjálfsagt, segi ég. Það eru hvort sem er ekki lengur neinar spólur. Þau vilja eiga alla hluti. Þau eru litlir hamstrar sem keppast við að fylla holurnar sínar. Veturinn kom í dag.





Það hanga hvítar flygsur í loftinu. Það er augljóst hvað það þýðir. Ég hef lifað á jörðinni í næstum því fjörutíu ár. Ég hef séð alla þættina. Við erum in the upside down. Við erum handan við heimsendi. Inn í hellinn og út í kjarnorkuveturinn.





Mamma, það snjóar!





Dóttir mín lygnir aftur augunum og óskar sér hvítra jóla. Sonur minn krefst þess að ég segi honum hvort jólin verði hvít. Ég veit það ekki, segi ég. Gáðu, svarar hann og bendir á símann. Ég útskýri að veðurfræðingarnir geti ekki sagt okkur hvað gerist eftir mánuð. Bara hvað gerist á morgun, segi ég. Eða eftir tuttugu ár, segi ég ekki.





Ég set á þau vettlinga, húfur og ofurlitla bakpoka. Þau rífa af sér vettlingana um leið og þau koma út. Moka snjónum beint upp í munn með litlum rauðum höndum. Munið að borða bara hreinan snjó! kalla ég á eftir þeim. Eins og ég hef kallað á eftir þeim alla snjódaga síðan þau fæddust. Orðin hringla í bakpokunum þeirra. Annars eru þeir næstum tómir.





Vasilísa hin fagra er söguhetjan í samnefndu rússnesku ævintýri úr þjóðsagna- og ævintýrasafni Alexanders Afanasjev sem hann tók saman á árunum 1855 til 1863. Í ævintýrinu fer Vasilísa út í skóg til að sækja eld fyrir heimilið og kemur að húsi nornarinnar Baba Yaga. Nornin lofar henni eldinum gegn því að hún flokki hrauk af hirsi í skemmd og óskemmd grjón og hrauk af birkifræjum og baunum í sundur. Þetta er ómögulegt verkefni og Vasilísa leysir það með hjálp móður sinnar. Sem er dáin. Mömmur í ævintýrum eru alltaf dánar. Þetta hefur ekki farið fram hjá dóttur minni. Hún heldur niðri í sér andanum hvenær sem við kveikjum á Disney-mynd.





Dóttir mín er níu ára. Á hverjum degi þarf ég að vanda mig til að ruglast ekki á henni og mér. Ég á stundum erfitt með að muna hver ég er. Ég hef velt því fyrir mér að láta tattúvera eitthvað á framhandlegginn á mér en um leið og ég tek upp símann til að panta tíma er ég ekki lengur viss um hvað það ætti að vera. Svona er ég gleymin. Ég hef gleymt því hvernig það var að ganga með börnin. Á meðan ég gekk með þau gleymdi ég að ég hafði fram að því verið eini íbúinn í líkama mínum. Núna man ég ekki lengur hvernig húsið okkar var áður en það fylltist af litlu fólki. Það var þess vegna sem ég smíðaði segulbandstækið.





Ég var níu ára þegar ég tók eftir því að ég var með færiband í höfðinu. Nýjar hugsanir streymdu hjá og ruddu hinum eldri í burtu áður en mér gafst færi á að skoða þær. Þær héngu saman á örmjóum þræði augnabliksins sem slitnaði þegar þær steyptust fram af brúninni og svifu ofan í tómið, hvítar flygsur. Ég smíðaði tækið í viðleitni til að safna mér saman, ná utan um mig. Tækið gat tekið upp og varðveitt hverja einustu hugsun.





Auðvitað varð það mér aldrei að gagni. Spólurnar hrúguðust upp í stóra hrauka sem hrundu undan eigin þunga og skriðu eftir svefnherbergisgólfinu. Eina leiðin til að finna hugsun aftur var að hlusta í rauntíma og þá var ég um leið komin í upptökuskuld. Ég hætti á endanum að taka upp. Að finna segulbandið aftur minnti mig á allt sem er í sífellu að glatast. Með nútímatækni væri kannski hægt að hlaða öllu inn í gagnagrunn sem gæti flokkað og raðað og flett hraðar en mannshugurinn.





Minnisglöp eru eitt af einkennum þunglyndis. Þegar ég man það þá get ég setið og beðið og treyst ferlinu. Ég er sterk þótt ég muni það ekki. Ég er elskuð þótt ég muni það ekki. Ég elska þótt ég muni það ekki. Treystið ferlinu. Ég set orðin á góðan stað. Seinna ætla ég að lauma þeim ofan í bakpoka barnanna minna.





Einu sinni gleymdi ég því í tíu ár að ég elskaði bækur. Samt gerði ég mér far um að heimsækja bókabúðir, því stærri því betra, og örvænti eins og Vasilísa frammi fyrir offlæðinu. Allt sem ég elska hefur þessa tilhneigingu, að umbreytast yfir í ómögulegt verkefni sem ég þarf að leysa fyrir dögun eða verða étin af norn.





Þegar börnin koma aftur inn rannsaka ég andlitin til að vera viss um að þau hafi sorterað snjókornin frá svifrykinu. Þau eru með eplakinnar og stirnd augu. Þau hafa beðið eftir þessu svo lengi.





Á dánarbeðinum gaf mamma Vasilísu henni brúðu. Í hvert skipti sem stúlkan þurfti leiðsögn brást brúðan við í vasanum og þannig vissi Vasilísa hvað rétt væri að gera. Hverjum hún ætti að treysta, hvenær hún ætti að spyrja og hvenær væri hyggilegast að þegja. Hvenær tími væri kominn til að ögra norninni. Þegar hún grét frammi fyrir hinum ómögulegu verkefnum sagði dúkkan henni að óttast ekkert og kallaði til fugla himinsins til að flokka fræin.





Minnið um ómögulegu verkefnin skýtur upp kollinum aftur og aftur í ævintýrum, frá Öskubusku til Rumputuska. Eitt elsta tilvikið er frá annarri öld eftir Krist í sögu Apúleiusar um Kúpíd og Psýkku. Þar er það Venus sem skipar hinni saklausu stúlku að flokka í sundur hveitifræ, bygg, birkifræ, kíkertur, linsur og baunir. Í þessari útgáfu eru það ekki fuglar sem koma til hjálpar heldur maurar.





Þegar ég lygni aftur augunum þá óska ég þess að geta verið dómgreind í svuntuvasa eftir að ég dey. Eða til vara að gefa börnunum mínum eimaða visku kynslóðanna, þennan harða kjarna sem sumir virðast hafa fengið frá formæðrum sínum í gegnum ömmur og mömmur og svo framvegis og gerir þeim kleift að leysa ómögulegu verkefnin í myrkrinu á leiðinni að sækja eldinn.





Stærsti óttinn minn er að vera ómögulegt verkefni sjálf. Alla morgna vakna ég inn í nýjan veruleika. Það er gul viðvörun. Flygsurnar af sjálfri mér sem ég sópaði saman í gær hafa feykst í allar áttir. Ég er með fjórtán þúsund flipa opna í tölvunni, einn fyrir hvern dag sem ég hef lifað á jörðinni. Ég loka tölvunni og hita mjólk fyrir kakó.





Hvað kemur á eftir vetrinum? spyr sonur minn. Auðvitað vorið, segir systir hans. Það kemur á hann áhyggjusvipur. Hann var að læra um árstíðirnar í skólanum. Vorið er fyrsta árstíðin, segir hann. Veturinn er síðastur. Það kemur ekkert á eftir vetrinum. Ég finn ekki orðin til að útskýra að allt fari í hring.





Þau tala hvort í kapp við annað. Ég leitast við að vera hinn sanngjarni fundarstjóri, gef öðru þeirra orðið og svo hinu. En þau hafa beðið svo lengi. Heilan vetur. Þegar röðin kemur að þeim aftur er það of seint. Þau muna ekki hvað þau ætluðu að segja og bráðna úr gremju.





Mig langar að væla með þeim. Mig langar að segja þeim að þegja. Í staðinn segi ég, mamma þeirra: Hlustið. Það glatast ekkert sem skiptir máli. Hugsanirnar ykkar eru eins og litlu maurarnir sem feta sig í gegnum skóginn. Þeir eru ekki á færibandi heldur elta þeir ósýnilega lyktarslóð, svo hverfa þeir ofan í holu og koma aftur sömu leið. Ef þið náið þeim ekki núna þá náið þið þeim næst. Það fundust engir hraukar af upptökum með segulbandstækinu í geymslunni því ég henti þeim, daginn sem ég komst að því að það var það sama á öllum spólunum.





Ég renni frá bakpokunum þeirra til að setja þessa hugsun ofan í, áður en ég gleymi henni. En það er ekkert pláss. Bakpokarnir eru stappfullir af könglum og fagurlega lituðum smásteinum, grenigreinum. Gersemum sem börnin mín fundu úti.





Dagarnir eru gloppóttir. Nærðu utan um þig? spurði ég manninn minn fyrir svefninn í gær. Nei, sagði hann. Hver gerir það? Þegar ég vaknaði hafði náttúran gengið í lið með mér. Það var kominn vetur. Ég gleymi því á hverju ári en undantekningalaust kemur dagur um miðjan nóvember þar sem fyrsta froststillan drepur síðustu sumarblómin og allt verður skýrt.





Ég sé það núna að hvítu flygsurnar í loftinu eru ekki snjókorn heldur högl. Það er ekkert hægt að búa til úr þeim. Kringlóttar agnir staflast ekki. En börnunum mínum er sama. Þau hafa beðið svo lengi. Þau vissu nákvæmlega hvað þau ætluðu að byggja og þegar ég lít út í bakgarðinn sé ég borg.





Bakpokinn minn er tómur. Ég helli kakóinu á brúsa og smyr rúnnstykki með birkifræjum. Pakka því öllu niður. Börnin koma á eftir mér og saman rekjum við slóðirnar þeirra, örlítil fótspor í hvítunni.

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on December 01, 2020 08:20

July 16, 2019

Tíðir

Í lífi hverrar konu eru að minnsta kosti þrjár rykugar götur. Síðan eru það aðrar götur, tómlegar, eins og þessi sem við göngum eftir núna í glimrandi kvöldsólinni þegar skuggarnir eru langir og kaldir. Í gömlu timburhúsi skildi ég eftir pissublautan staut undir pappírsvöndli í ruslafötunni. Það er vor og ég ætla ekki að sleppa burt blóðdropa framar.


En það var sumar þegar ég vaknaði í húsi úr köldum flísum og lærin voru límd saman með rauðu. Það var hádegi þegar ég gekk upp á hæðina til að komast að kirkjunni. Ég beið ósigur í rykugum vegarkanti og þurfti að læra að anda upp á nýtt. Það rigndi þegar við komumst loks til Delfí. Á leiðinni niður fjallið með axlirnar brenndar mættum við manni með asna. Þetta sumar hétu íspinnarnir eftir dauðasyndunum og ég var að borða öfund þegar blóðdropinn féll í rykið.


Það er ein gata enn en ég hugsa helst ekki um hana. Núna er ég að brugga dálítið í blóðinu og bíð eftir kaldasta vetrinum. Þá ætla ég að sprengja heiminn upp, fyrst með hvelli, síðan kjökri, og sjá hann síðan koma út úr mér og kvíslast.

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on July 16, 2019 05:17

March 17, 2019

Brjálæðislega skemmtilegt háð

Lofsamlegur dómur um Keisaramörgæsir í Kiljunni:


Mér finnst í gegnum bókina vera eins konar íhugun um meðal annars neysluhyggjuna og um það á hvaða leið mannsskepnan er. Það er svona heimsendafílingur í sumu í bókinni. Þetta er hugmyndaríkur höfundur, hún hefur gaman að þessu. Ég spái vel fyrir henni sem höfundi.

Sigurður Valgeirsson


Hún á að halda áfram að skrifa, það er alveg ljóst.

Kolbrún Bergþórsdóttir


Brjálæðislega skemmtilegt háð.

Egill Helgason


Umfjöllun Kiljunnar má sjá hér

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on March 17, 2019 17:03

February 24, 2019

Það spretta orkídeur upp úr gólffjölunum eftir Kaveh Akbar

Það spretta orkídeur upp úr gólffjölunum


Orkídeur streyma úr krönunum.


Kötturinn mjálmar orkídeum út um munninn.


Veiðihárin eru líka orkídeur.


Orkídeur blómstra í grasinu.


Bráðum verður það mestmegnis orkídeur.


Trén eru full af orkídeum.


Orkídeur hringsnúast í dekkjarólunni.


Sólarljósið á blautri steypunni er hvít orkídea.


Hjólbarðar bílanna skilja eftir sig slóð af orkídeum.


Orkídeuvöndur líður upp úr púströrinu.


Táningar senda hver öðrum myndir


af orkídeum í símunum sínum, sem eru líka orkídeur.


Gamlir menn í orkídeu-mokkasínum


skiptast ákafir á orkídeum.


Mæður fylla pela af volgum orkídeum


til að gefa krílunum sínum, sem sjálf eru orkídeur.


Hjalið í þeim er eins konar orkídea.


Skýin eru öll orkídeur.


Það rignir orkídeum úr þeim.


Allir veggirnir eru orkídeur,


teketillinn er orkídea,


hvítur striginn er orkídea,


og þessi kuldi er orkídea. Ó,


Lydía, við söknum þín sárt.


 


Þýðing: Þórdís Helgadóttir

1 like ·   •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on February 24, 2019 09:56

February 15, 2019

Hryggjarstykki

I


Það var eins og að horfa á bílslys

gerast hægt.


Nema það var ekki beint eins og bílslys.

Meira eins og flugslys.

Sætisarmar og bleyjutöskur í lausu lofti.

Logandi Saga Boutique vagn.


Það var eins og að horfa á flugslys

gerast hægt.


Nema það var ekki beint eins og það væri að gerast hægt.

Heldur hratt.

Það var eins og að horfa á flugslys

gerast hratt.


Hratt þannig að lungun fengu högg og hættu snöggvast að virka.

Hratt þannig að þrýstingurinn sprengdi æðarnar í augunum. Og svo augun.


Hratt eins og það hefði verið átt við varahreyflana.


Eins og einhver hefði borið eld að 3000 lítrum af flugvélabensíni.

Heitt og hratt.


Og á fluginu sprettust líkamarnir mjúklega í sundur og snjóuðu til jarðar.

Eyra, upphandleggur, stóratá.


Hægri höndin lenti kannski hér

og vinstri höndin lengst þarna hinum megin.

Landið á milli þeirra er það sem þú helgar þér.

Handa afkomendum þínum sem koma að leita í fyllingu tímans.


Og á fluginu þegar líkamarnir sprettust mjúklega í sundur þá flæddi inn í þá ljós.

Það flæddi inn í þá ljós í fyrsta skipti.


Af því að þegar þú hugsar út í það þá er lifandi líkami myrkrakompa.

Líffærin strita í hita og myrkri og þrengslum.

Sitja þarna þind við bris við lifur við leg.

Frumuveggur við frumuvegg og öll staurblind í myrkrinu.

Þetta var eins og að horfa á bílslys

gerast hægt.


Maður gat eiginlega varla horft.


Og ég er ekki að afsaka mig

en þannig atvikaðist það bara að ég var inni í mér öll þessi ár.

Að vafra um og villast og svona. Reyna að kortleggja myrkrið.

Troða mér inn í þrönga kima og reyna og finna fótfestu í klístrinu.


Ég var orðin snarvillt þegar ég rambaði á endanum á súluna.

Svona undarlega forna,

hífða upp í lóðrétta stöðu í einhverjum hybris.

Háreista og úthoggna, með vitran og herskáan svip á hverjum lið.

Svo ég klifraði.

Hrygg.


II


Janúar er eins og vor, segja þau á næsta hlaupabretti.

Í ræktinni, sko,

í hádeginu.

Og það sama við kaffivélina.

Þetta er bara eins og vor.


Nýtt upphaf.

Hlýtt nýtt upphaf.

Nema það er bara dimmt.

Dimmt vor fyrir tímann.

Eins og fyrirburi.

Eins og svona fyrirburður sem kemur með bölvun.


En ég segi ekki neitt.

Ég bara mjaka mér eftir yfirborðinu.

Þakklát fyrir þyngdaraflið sem límir mig fasta eins og snigil.

Þoka mér á hóflegum hraða. Eftir yfirborðinu.

Varlega fram hjá öllu sem er of heitt eða of beitt eða of blautt.


Af öllu því efni sem alheimurinn geymir í ómæli sínu er jú flestallt bráðdrepandi.

Of kalt eða of stórt eða of kæfandi.

Á borðinu bíður mín kveðjubréf.

Blautt, samt þurrt.

Loðnan er farin.

Hún þakkar kuldalega fyrir sig.


Síðasti ísbjörninn skrifaði skilaboð með grænu á himininn.

Svona líka hlýjan himin.

Svona líka dimman.

Ég veit varla lengur hvort er innan í mér og hvort fyrir utan.


Ég fálma.

Þetta er eins og að horfa á flugslys

gerast hratt.


Vænglausir tvífætlingar, hver í sínu sæti, í svona líka brothættu hylki.

Svona líka langt fyrir ofan yfirborðið.

Sætisbeltaljósin loga en líffærin halda áfram að vinna.

Eggjastokkarnir þurfa að halda áætlun og standa við gerða samninga.

Lifrin púlar í myrkrinu. Klístruð viðkomu þegar ég smeygi mér framhjá.


Í myrkrakompunni eru framkallaðar myndir sem ég þori ekki að horfa á.

Ég er búin að gleyma því að ég er ekki snigill svo hún kemur mér á óvart.

Ég ramba beint á hana, súluna, þar sem hún stendur

á bak við þanin lungu, milli bólginna bakvöðva.

Úthoggið skurðgoð með gogg og hvöss augu yfir og undir.

Banakringlan er í laginu eins og handfang.

Og ég held

með hendi.

Og ég hendi

án þess að vita hvar ég lendi.

Og afkomendur mínir

– af því að ég á afkomendur –

hvern þann hnött sem öndvegissúla mín lendir á,

hann mega afkomendur mínir eiga.


Allt milli hægri handar og þeirrar vinstri.


 

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on February 15, 2019 05:33

December 16, 2018

Tímamót?

Ég hvet alla sem vilja fylgjast með helstu straumum í íslenskum samtímabókmenntum að láta þetta smásagnasafn Þórdísar Helgadóttur ekki framhjá sér fara. Mér koma satt að segja í hug þau tímamót sem urðu með sögum Svövu Jakobsdóttur, þegar furðum var ofið saman við raunsæi og íslensk smásagnagerð tók þroskastökk.


Á baksíðu bókarinnar er fullyrt að Þórdís sé einn efnilegasti höfundur landsins. Gagnvart slíkri fullyrðingu um nýjan höfund gæti lesandi fyllst tortryggni en ekki þarf að lesa lengi til að sannfærast um að fullyrðingin stendur vel undir sér. Þórdís hefur greinilega mjög gott vald á tungumálinu, sögur hennar eru frumlegar; alls konar í laginu og misjafnar að lengd, en aðall þeirra er firnasterkt andrúmsloft sem henni tekst að skapa í flestum sagnanna.


Soffía Auður Birgisdóttir á skald.is

2 likes ·   •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on December 16, 2018 05:45

November 14, 2018

Kitla #3

Korríró, beibí


[image error]


 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on November 14, 2018 16:31

October 30, 2018

Kitla #2

Leg …


[image error]


 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on October 30, 2018 16:20

October 17, 2018

Keisaramörgæsir – kitla

Það er rangt að ég hafi átt í ástarsambandi við Filippo Tommaso Marinetti


[image error]


 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on October 17, 2018 04:54