Þórdís Helgadóttir's Blog, page 2
July 16, 2019
Tíðir
Í lífi hverrar konu eru að minnsta kosti þrjár rykugar götur. Síðan eru það aðrar götur, tómlegar, eins og þessi sem við göngum eftir núna í glimrandi kvöldsólinni þegar skuggarnir eru langir og kaldir. Í gömlu timburhúsi skildi ég eftir pissublautan staut undir pappírsvöndli í ruslafötunni. Það er vor og ég ætla ekki að sleppa burt blóðdropa framar.
En það var sumar þegar ég vaknaði í húsi úr köldum flísum og lærin voru límd saman með rauðu. Það var hádegi þegar ég gekk upp á hæðina til að komast að kirkjunni. Ég beið ósigur í rykugum vegarkanti og þurfti að læra að anda upp á nýtt. Það rigndi þegar við komumst loks til Delfí. Á leiðinni niður fjallið með axlirnar brenndar mættum við manni með asna. Þetta sumar hétu íspinnarnir eftir dauðasyndunum og ég var að borða öfund þegar blóðdropinn féll í rykið.
Það er ein gata enn en ég hugsa helst ekki um hana. Núna er ég að brugga dálítið í blóðinu og bíð eftir kaldasta vetrinum. Þá ætla ég að sprengja heiminn upp, fyrst með hvelli, síðan kjökri, og sjá hann síðan koma út úr mér og kvíslast.
March 17, 2019
Brjálæðislega skemmtilegt háð
Lofsamlegur dómur um Keisaramörgæsir í Kiljunni:
Mér finnst í gegnum bókina vera eins konar íhugun um meðal annars neysluhyggjuna og um það á hvaða leið mannsskepnan er. Það er svona heimsendafílingur í sumu í bókinni. Þetta er hugmyndaríkur höfundur, hún hefur gaman að þessu. Ég spái vel fyrir henni sem höfundi.
Sigurður Valgeirsson
Hún á að halda áfram að skrifa, það er alveg ljóst.
Kolbrún Bergþórsdóttir
Brjálæðislega skemmtilegt háð.
Egill Helgason
February 24, 2019
Það spretta orkídeur upp úr gólffjölunum eftir Kaveh Akbar
Það spretta orkídeur upp úr gólffjölunum
Orkídeur streyma úr krönunum.
Kötturinn mjálmar orkídeum út um munninn.
Veiðihárin eru líka orkídeur.
Orkídeur blómstra í grasinu.
Bráðum verður það mestmegnis orkídeur.
Trén eru full af orkídeum.
Orkídeur hringsnúast í dekkjarólunni.
Sólarljósið á blautri steypunni er hvít orkídea.
Hjólbarðar bílanna skilja eftir sig slóð af orkídeum.
Orkídeuvöndur líður upp úr púströrinu.
Táningar senda hver öðrum myndir
af orkídeum í símunum sínum, sem eru líka orkídeur.
Gamlir menn í orkídeu-mokkasínum
skiptast ákafir á orkídeum.
Mæður fylla pela af volgum orkídeum
til að gefa krílunum sínum, sem sjálf eru orkídeur.
Hjalið í þeim er eins konar orkídea.
Skýin eru öll orkídeur.
Það rignir orkídeum úr þeim.
Allir veggirnir eru orkídeur,
teketillinn er orkídea,
hvítur striginn er orkídea,
og þessi kuldi er orkídea. Ó,
Lydía, við söknum þín sárt.
Þýðing: Þórdís Helgadóttir
February 15, 2019
Hryggjarstykki
I
Það var eins og að horfa á bílslys
gerast hægt.
Nema það var ekki beint eins og bílslys.
Meira eins og flugslys.
Sætisarmar og bleyjutöskur í lausu lofti.
Logandi Saga Boutique vagn.
Það var eins og að horfa á flugslys
gerast hægt.
Nema það var ekki beint eins og það væri að gerast hægt.
Heldur hratt.
Það var eins og að horfa á flugslys
gerast hratt.
Hratt þannig að lungun fengu högg og hættu snöggvast að virka.
Hratt þannig að þrýstingurinn sprengdi æðarnar í augunum. Og svo augun.
Hratt eins og það hefði verið átt við varahreyflana.
Eins og einhver hefði borið eld að 3000 lítrum af flugvélabensíni.
Heitt og hratt.
Og á fluginu sprettust líkamarnir mjúklega í sundur og snjóuðu til jarðar.
Eyra, upphandleggur, stóratá.
Hægri höndin lenti kannski hér
og vinstri höndin lengst þarna hinum megin.
Landið á milli þeirra er það sem þú helgar þér.
Handa afkomendum þínum sem koma að leita í fyllingu tímans.
Og á fluginu þegar líkamarnir sprettust mjúklega í sundur þá flæddi inn í þá ljós.
Það flæddi inn í þá ljós í fyrsta skipti.
Af því að þegar þú hugsar út í það þá er lifandi líkami myrkrakompa.
Líffærin strita í hita og myrkri og þrengslum.
Sitja þarna þind við bris við lifur við leg.
Frumuveggur við frumuvegg og öll staurblind í myrkrinu.
Þetta var eins og að horfa á bílslys
gerast hægt.
Maður gat eiginlega varla horft.
Og ég er ekki að afsaka mig
en þannig atvikaðist það bara að ég var inni í mér öll þessi ár.
Að vafra um og villast og svona. Reyna að kortleggja myrkrið.
Troða mér inn í þrönga kima og reyna og finna fótfestu í klístrinu.
Ég var orðin snarvillt þegar ég rambaði á endanum á súluna.
Svona undarlega forna,
hífða upp í lóðrétta stöðu í einhverjum hybris.
Háreista og úthoggna, með vitran og herskáan svip á hverjum lið.
Svo ég klifraði.
Hrygg.
II
Janúar er eins og vor, segja þau á næsta hlaupabretti.
Í ræktinni, sko,
í hádeginu.
Og það sama við kaffivélina.
Þetta er bara eins og vor.
Nýtt upphaf.
Hlýtt nýtt upphaf.
Nema það er bara dimmt.
Dimmt vor fyrir tímann.
Eins og fyrirburi.
Eins og svona fyrirburður sem kemur með bölvun.
En ég segi ekki neitt.
Ég bara mjaka mér eftir yfirborðinu.
Þakklát fyrir þyngdaraflið sem límir mig fasta eins og snigil.
Þoka mér á hóflegum hraða. Eftir yfirborðinu.
Varlega fram hjá öllu sem er of heitt eða of beitt eða of blautt.
Af öllu því efni sem alheimurinn geymir í ómæli sínu er jú flestallt bráðdrepandi.
Of kalt eða of stórt eða of kæfandi.
Á borðinu bíður mín kveðjubréf.
Blautt, samt þurrt.
Loðnan er farin.
Hún þakkar kuldalega fyrir sig.
Síðasti ísbjörninn skrifaði skilaboð með grænu á himininn.
Svona líka hlýjan himin.
Svona líka dimman.
Ég veit varla lengur hvort er innan í mér og hvort fyrir utan.
Ég fálma.
Þetta er eins og að horfa á flugslys
gerast hratt.
Vænglausir tvífætlingar, hver í sínu sæti, í svona líka brothættu hylki.
Svona líka langt fyrir ofan yfirborðið.
Sætisbeltaljósin loga en líffærin halda áfram að vinna.
Eggjastokkarnir þurfa að halda áætlun og standa við gerða samninga.
Lifrin púlar í myrkrinu. Klístruð viðkomu þegar ég smeygi mér framhjá.
Í myrkrakompunni eru framkallaðar myndir sem ég þori ekki að horfa á.
Ég er búin að gleyma því að ég er ekki snigill svo hún kemur mér á óvart.
Ég ramba beint á hana, súluna, þar sem hún stendur
á bak við þanin lungu, milli bólginna bakvöðva.
Úthoggið skurðgoð með gogg og hvöss augu yfir og undir.
Banakringlan er í laginu eins og handfang.
Og ég held
með hendi.
Og ég hendi
án þess að vita hvar ég lendi.
Og afkomendur mínir
– af því að ég á afkomendur –
hvern þann hnött sem öndvegissúla mín lendir á,
hann mega afkomendur mínir eiga.
Allt milli hægri handar og þeirrar vinstri.
December 16, 2018
Tímamót?
Ég hvet alla sem vilja fylgjast með helstu straumum í íslenskum samtímabókmenntum að láta þetta smásagnasafn Þórdísar Helgadóttur ekki framhjá sér fara. Mér koma satt að segja í hug þau tímamót sem urðu með sögum Svövu Jakobsdóttur, þegar furðum var ofið saman við raunsæi og íslensk smásagnagerð tók þroskastökk.
Á baksíðu bókarinnar er fullyrt að Þórdís sé einn efnilegasti höfundur landsins. Gagnvart slíkri fullyrðingu um nýjan höfund gæti lesandi fyllst tortryggni en ekki þarf að lesa lengi til að sannfærast um að fullyrðingin stendur vel undir sér. Þórdís hefur greinilega mjög gott vald á tungumálinu, sögur hennar eru frumlegar; alls konar í laginu og misjafnar að lengd, en aðall þeirra er firnasterkt andrúmsloft sem henni tekst að skapa í flestum sagnanna.
November 14, 2018
October 30, 2018
October 17, 2018
Keisaramörgæsir – kitla
Það er rangt að ég hafi átt í ástarsambandi við Filippo Tommaso Marinetti
[image error]
…
October 7, 2018
Ilya Kaminsky
RÓSA FRÆNKA
Í hermannabúningi, í tréskóm dansaði hún
í byrjun dags og lok dags, Rósa frænka mín.
Eiginmaðurinn bjargaði ófrískri konu
úr brennandi húsi – hann heyrði hlátur,
hver dagur var með sitt litla stórskotalið – í þessum eldsvoða
brenndist hann á kynfærunum. Rósa frænka mín
tók að sér börn annars fólks – hún smellti í góm þegar þau grétu
og ágústmánuður dró tjöldin fyrir kvöld eftir kvöld.
Ég sá hana með krít á milli fingranna,
hún skrifaði glósur á auða töflu,
höndin hreyfðist og taflan var áfram auð.
Við bjuggum í borg við hafið en það var
önnur borg á hafsbotni og enginn nema heimakrakkarnir trúðu á tilvist hennar.
Hún trúið þeim. Hún hengdi mynd af eiginmanninum
á vegg í íbúðinni sinni. Hvern mánuð
á nýjan vegg. Ég sé hana enn fyrir mér með þessa mynd, hamar
í vinstri hendi, nagla uppi í sér.
Úr munninum berst lykt af villtum hvítlauk –
hún nálgast mig í náttfötunum
rífst við mig og sjálfa sig.
Kvöldin eru sönnunargögn mín, þetta kvöld
hún sökkvir höndunum í það upp að olnbogum,
kvöldið er sofandi inni í öxl hennar – öxlin
ávöl af svefni.
Þýð. Sigurður Pálsson
August 19, 2018
Keisaramörgæsir í Hve glötuð er vor æska?
Það styttist í að Keisaramörgæsir líti dagsins ljós. Ég var lengi í vafa um titilinn en þegar hann var einu sinni kominn þá var hann bara kominn og ég gat ekkert haggað honum. Mig dreymir um að vera einn af þessum höfundum sem koma með neglu-titla í hvert einasta skipti en það er eins og ég tæmi sköpunarkraftinn alltaf í textann og eigi svo ekkert eftir fyrir titilinn. Kannski er galdurinn að læra að taka titilinn alvarlega sem listaverk í sjálfum sér. En bókin heitir alla vega það sem hún heitir og á dögunum fór ég í stutt viðtal við Þorvald S. Helgason og kynnti hana í fyrsta skipti á opinberum vettvangi í þættinum Hve glötuð er vor æska? á RÚV núll.
Hér er viðtalið. Ég spjalla um bókina, formið og uppáhalds-smásagnahöfundinn minn við Þorvald og Fríðu Ísberg svikaskáld, og gef forsmekk af sögu sem heitir „Leg“. (Titill sem ég er reyndar nokkuð ánægð með.) Annar uppáhaldshöfundur, Kristín Eiríksdóttir, er líka tekin tali í þættinum. Smásögur eru kúl. Hlustið!