Skilabo

1. maí ávap á Nasa

Við brugðumst vel við og sýndum heimili okkar.
Gesturinn hugsaði: Þið búið vel. Fátækrahverfin eru innra með yður.
Þannig yrkir sænska skáldið Tómas Tranströmer og segja má að þarna birtist sannleikur ljóðsins, því ljóðið er hvorki fréttastofa né spjallþáttur.
"Það er fátt fréttnæmt í ljóðum. Engu að síður deyja margir á ömurlegan hátt vegna skorts á því sem þar er að finna," orti annað skáld frá Ameríku.
Ég vil spyrja: Hvað er að frétta úr verkalýðsbaráttunni? Hvar er hún á baráttudegi verkalýðsins? Hver talar máli verkalýðsins? Við heyrum stöðugt um samningabrot, vinnuþrælkun og aðbúnað sem mönnum er ekki bjóðandi.

Frjálslyndi flokkurinn vill tefla launafólk hvert gegn öðru, og þannig endar það ef við látum ekki í okkur heyra. Hrein og klár lögbrot eru látin viðgangast.

Höfuðverkefni verkalýðshreyfingarinnar er að skikka atvinnurekendur til að fylgja landslögum. Það ætti að vísu að vera í verkahring lögreglunnar, en auðmagnið kemst upp með allt í heimi hins hreyfanlega vinnuafls. Þess vegna er gamla kjörorðið Öreigar allra landa sameinist alls ekki úrelt. Það hefur aldrei skipt meira máli.
Verkafólk á ekki að lifa í ótta hvert við annað. Lög og reglur eru brotnar og fólki bara sagt að halda kjafti. Þess vegna köllum við á samstöðu. Ég vil sjá vinstriöflin vekja athygli á stöðu láglaunafólks.
Láglaunafólk á sér allt of fáa talsmenn í dag. Atvinnurekendur komast upp með fáránlega kúgun í skjóli þessarar þagnar. Það er hún sem er fátækrahverfið innra með okkur.

Við tökum þátt í glæpsamlegu stríði.
Stríðsreksturinn í Írak snýst um að moka undir eina fáránlegustu yfirstétt sögunnar, þá amerísku, en stríð hennar er háð í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum og fyrir frelsi og lýðræði. Hvernig á fólkið sem þjáist undan þessu öllu að tengja þjáningar sínar við baráttuna fyrir frelsi og lýðræði? Það gengur auðvitað hvergi upp nema í málflutningi stríðsherranna og það er sá málflutningur sem ríkistjórnarflokkarnir hafa tekið að sér að bergmála.
Að þeir vilji nú klóra í bakkann og beri fyrir sig skorti á upplýsingum er órækasta sönnun þess að þeir eiga að láta sig hverfa. Við gátum veitt þeim allar þessar upplýsingar og gerðum það. Ætlaði Framsóknarflokkurinn með sitt litla fylgi á Íslandi að koma á lýðræði í Írak?
Þessir menn hafa tekið þátt í að deila heiminum upp í Múslimi og Bushlimi. Við erum Bushlimir, í stríði með Bush hvort sem okkur líkar betur eða verr, allir settir undir einn hatt, en Múslimir trúa á Múhameð og vilja taka af okkur tjáningafrelsið og lýðræðið; og sjálfsagt líka bílana, húsin og konurnar. Við eigum að neita að taka þátt í þessu óttabandalagi og segja Fökk NATO og Niður með heimsvaldastefnuna, hvort sem hún dulbýr sig í slóttugu fjármagnsfrelsinu eða lætur vopnin tala.
Bláeygir stjórnmálamenn koma og spyrja: Hvers vegna hata þeir okkur? Hvað höfum við gert þeim? Flýtum okkur heim, lokum hliðunum og læsum. Nei, nei, við komum út og sýnum þeim hvað við erum rosalegir karlar með nokkrum skopteikningum. Eða við förum bara í stríð.
En málið vandast þegar haft er í huga að óvinurinn er kominn inn um hliðið. Hann skúrar gólfin, hann flakar fiskinn, stendur við færibandið og sópar göturnar. Hann gerir ýmislegt fleira, en hann er ekki ánægður. En hann heldur kjafti og á meðan hann heldur kjafti er sambúðin góð.
Ég ætla ekki að rifja upp sögu Rómaveldis, en hrundi það ekki smám saman? Róm var ekki byggði á einum degi en hún hrundi heldur ekki á einum degi. Tók það ekki ein þrjúhundruð ár? Voru rómversku keisararnir ekki sífellt að berja niður uppreisnir í skattlöndunum?
Og hvað með Jesús Krist? Var hann ekki hættulegur uppreisnarmaður, jafnvel hryðjuverkamaður, í augum yfirvalda, andlegra jafnt sem veraldlegra? Hvað þætti sannkristnum Bandaríkjamönnum um mann sem myndi ryðjast inn í kauphallirnar og orga á verðbréfasalana sem þéna árslaun verkamanna á meðan þeir dotta í hádeginu?
Hnígur þetta ekki allt að sama grunni? Á dögum Rómaveldis voru innflytjendurnir kallaðir barbarar, sem við höfum þýtt með orðinu villimenn. Þegar Rómverjar reyndu að sporna við þeim brustu allir múrar. Rómverjarnir voru ófærir um að stjórna lengur, spilltari en Framsóknarmenn, sem enn eru að vísu ekki farnir að skipa hesta í embætti, en furðulegum mönnum er raðað á enn furðulegri staði.
Við eigum ekki að halda kjafti. Við eigum ekki að láta Frjálslynda flokkinn tefla verkafólki saman. Við eigum að hvetja til samstöðu launafólks og ekki láta taka af okkur réttindin. Ef vinstriöflin og verkalýðshreyfingin halda bara kjafti gerist það af sjálfu sér. Þess vegna minnum við á að baráttan er alþjóðleg og hún er í garðinum hjá okkur og fyrsta verkefnið er að reita framsóknar- og íhaldsarfann.
Ég hvet frambjóðendur Vinstri grænna að láta í sér heyra, því ef við gerum það ekki gerir það enginn.


Og þá sný ég mér að því sem ég átti að gera hér, sem er skáldskapur ...

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on May 02, 2007 05:53
No comments have been added yet.


Einar Már Guðmundsson's Blog

Einar Már Guðmundsson
Einar Már Guðmundsson isn't a Goodreads Author (yet), but they do have a blog, so here are some recent posts imported from their feed.
Follow Einar Már Guðmundsson's blog with rss.