Hryggjarstykki

I


Það var eins og að horfa á bílslys

gerast hægt.


Nema það var ekki beint eins og bílslys.

Meira eins og flugslys.

Sætisarmar og bleyjutöskur í lausu lofti.

Logandi Saga Boutique vagn.


Það var eins og að horfa á flugslys

gerast hægt.


Nema það var ekki beint eins og það væri að gerast hægt.

Heldur hratt.

Það var eins og að horfa á flugslys

gerast hratt.


Hratt þannig að lungun fengu högg og hættu snöggvast að virka.

Hratt þannig að þrýstingurinn sprengdi æðarnar í augunum. Og svo augun.


Hratt eins og það hefði verið átt við varahreyflana.


Eins og einhver hefði borið eld að 3000 lítrum af flugvélabensíni.

Heitt og hratt.


Og á fluginu sprettust líkamarnir mjúklega í sundur og snjóuðu til jarðar.

Eyra, upphandleggur, stóratá.


Hægri höndin lenti kannski hér

og vinstri höndin lengst þarna hinum megin.

Landið á milli þeirra er það sem þú helgar þér.

Handa afkomendum þínum sem koma að leita í fyllingu tímans.


Og á fluginu þegar líkamarnir sprettust mjúklega í sundur þá flæddi inn í þá ljós.

Það flæddi inn í þá ljós í fyrsta skipti.


Af því að þegar þú hugsar út í það þá er lifandi líkami myrkrakompa.

Líffærin strita í hita og myrkri og þrengslum.

Sitja þarna þind við bris við lifur við leg.

Frumuveggur við frumuvegg og öll staurblind í myrkrinu.

Þetta var eins og að horfa á bílslys

gerast hægt.


Maður gat eiginlega varla horft.


Og ég er ekki að afsaka mig

en þannig atvikaðist það bara að ég var inni í mér öll þessi ár.

Að vafra um og villast og svona. Reyna að kortleggja myrkrið.

Troða mér inn í þrönga kima og reyna og finna fótfestu í klístrinu.


Ég var orðin snarvillt þegar ég rambaði á endanum á súluna.

Svona undarlega forna,

hífða upp í lóðrétta stöðu í einhverjum hybris.

Háreista og úthoggna, með vitran og herskáan svip á hverjum lið.

Svo ég klifraði.

Hrygg.


II


Janúar er eins og vor, segja þau á næsta hlaupabretti.

Í ræktinni, sko,

í hádeginu.

Og það sama við kaffivélina.

Þetta er bara eins og vor.


Nýtt upphaf.

Hlýtt nýtt upphaf.

Nema það er bara dimmt.

Dimmt vor fyrir tímann.

Eins og fyrirburi.

Eins og svona fyrirburður sem kemur með bölvun.


En ég segi ekki neitt.

Ég bara mjaka mér eftir yfirborðinu.

Þakklát fyrir þyngdaraflið sem límir mig fasta eins og snigil.

Þoka mér á hóflegum hraða. Eftir yfirborðinu.

Varlega fram hjá öllu sem er of heitt eða of beitt eða of blautt.


Af öllu því efni sem alheimurinn geymir í ómæli sínu er jú flestallt bráðdrepandi.

Of kalt eða of stórt eða of kæfandi.

Á borðinu bíður mín kveðjubréf.

Blautt, samt þurrt.

Loðnan er farin.

Hún þakkar kuldalega fyrir sig.


Síðasti ísbjörninn skrifaði skilaboð með grænu á himininn.

Svona líka hlýjan himin.

Svona líka dimman.

Ég veit varla lengur hvort er innan í mér og hvort fyrir utan.


Ég fálma.

Þetta er eins og að horfa á flugslys

gerast hratt.


Vænglausir tvífætlingar, hver í sínu sæti, í svona líka brothættu hylki.

Svona líka langt fyrir ofan yfirborðið.

Sætisbeltaljósin loga en líffærin halda áfram að vinna.

Eggjastokkarnir þurfa að halda áætlun og standa við gerða samninga.

Lifrin púlar í myrkrinu. Klístruð viðkomu þegar ég smeygi mér framhjá.


Í myrkrakompunni eru framkallaðar myndir sem ég þori ekki að horfa á.

Ég er búin að gleyma því að ég er ekki snigill svo hún kemur mér á óvart.

Ég ramba beint á hana, súluna, þar sem hún stendur

á bak við þanin lungu, milli bólginna bakvöðva.

Úthoggið skurðgoð með gogg og hvöss augu yfir og undir.

Banakringlan er í laginu eins og handfang.

Og ég held

með hendi.

Og ég hendi

án þess að vita hvar ég lendi.

Og afkomendur mínir

– af því að ég á afkomendur –

hvern þann hnött sem öndvegissúla mín lendir á,

hann mega afkomendur mínir eiga.


Allt milli hægri handar og þeirrar vinstri.


 

 •  0 comments  •  flag
Share on Twitter
Published on February 15, 2019 05:33
No comments have been added yet.