Saga þeirra systkina Tinnu og Skorra var saga um hrylling og ofbeldi ástarinnar, þetta var saga um grimmd örlaganna, þetta var saga um það hversu lítið manneskjur hafa um það að segja hvernig líf þeirra fer. En þetta var líka saga um venjulegan mann. Mann sem hafði – til að orða það groddalega – drepið systur sína og vildi að ég skrifaði um það til þess að heimurinn vissi að honum hefði aldrei gengið nema gott eitt til.
Halldór Armand Ásgeirsson (f. 1986) lauk meistaraprófi í lögum við Háskóla Íslands árið 2012 og hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir handritið að fyrstu skáldsögu sinni, Vince Vaughn í skýjunum (2013). Síðan þá hafa komið út Drón (2014), Aftur og aftur (2017), Bróðir (2020) og nú síðast Mikilvægt rusl (2024). Hann hefur einnig sent frá sér esseyjusafnið Við erum bara að reyna að hafa gaman (2022). Bækur hans hafa komið út á fjölda tungumála og pistlar hans um samfélagsleg málefni njóta mikilla vinsælda.
Halldór Armand Ásgeirsson (b.1986) is one of the young, extraordinary voices on the Icelandic literary scene. He completed a master’s degree in law at the University of Iceland in 2012 and received the Greenshots Award for the manuscript of his debut novel, Vince Vaughn in the Clouds (2013). Since then, he has published Drone (2014), Again and Again (2017), Brother (2020), and most recently, Important Trash (2024). He has also released the essay collection We’re Just Trying to Have Fun (2022). His books have been published in several languages, and his essays on social issues are highly popular.
Eftir að hafa lesið Aftur & aftur á sínum tíma hef ég beðið spenntur eftir næstu bók Halldórs. Bróðir stenst þær væntingar og meira en svo. Mikil og góð flétta sem teiknar inn ýmsar samfélagslegar pælingar í alls konar útskot meginmálsins. Það eru í raun þessi aukaatriði, þessar pælingar um íslenskt samfélag, einstaklinginn og tilganginn, sem ég held hvað mest upp á í skrifum Halldórs. Nýkynslóðargeitin?
Hef ekki áður lesið bók eftir Halldór Armand, en heyrt áhugaverða pistla hans á Rás 1. Bróðir er mjög vel skrifuð og grípandi - kemur á óvart fram á síðustu blaðsíðu. Innihaldið er annað en upplýsingar á baksíðu gætu gefið til kynna. Flottur penni þessi strákur, mæli með bókinni!
Mig langaði að elska þessa bók, hún hafði allt til þess að bera. Falleg forsíða og lokkandi lýsing á söguþræði. Svo var reyndin sú að sagan var innihaldsrýr, tilgerðarleg og ég náði alls ekki að tengja við hana. Aftan á bókinni segir: Saga þeirra systkina Tinnu og Skorra var saga um hrylling og ofbeldi ástarinnar, þetta var saga um grimmd örlaganna, þetta var saga um það hversu lítið manneskjur hafa um það að segja hvernig líf þeirra fer. En þetta var líka saga um venjulegan mann. Mann sem hafði – til að orða það groddalega – drepið systur sína og vildi að ég skrifaði um það til þess að heimurinn vissi að honum hefði aldrei gengið nema gott eitt til.
Stór orð. Heillandi og dulúðlegt. Nema hvað þetta er alls ekki saga um hrylling eða ofbeldi ástarinnar og ekki heldur um grimmd örlaganna. Þetta er alls ekki saga um það hversu lítið manneskjur hafa um það að segja hvernig líf þeirra fer, heldur lýsir hún því einmitt hvernig manneskjur skapa sér örlög með ákvörðunum sínum og gerðum. Þetta er heldur ekki saga um mann sem hafði drepið systur sína, því það var bara alls ekki það sem gerðist. Það er líka ljóst að þetta er ekki saga um mann sem hafði gengið gott eitt til því það eina sem þessi bók fjallar um er að fyrrgreindur maður gerir ekkert nema það sé í eigin þágu og gróða og er tilbúinn að ganga virkilega langt í því að vernda eigin leyndarmál.
Það fór gríðarlega í taugarnar á mér hversu tilgerðarleg bókin er. Langar heimspekilegar vangaveltur og heimspekilegar túlkanir á fólki, aðstæðum og landslagi sem ég tengdi engan veginn við. Ég hefði frekar viljað fá að túlka þetta allt á minn hátt, lesa það sem mig langaði í söguna og eiga mína eigin upplifun af henni. Það var ekki í boði því það var alltaf einhver heimspekilegur besserwizzer sem sveif yfir vötnum og sagði mér hvað og hvernig ég átti að lesa í allt.
Svo voru það ljóðrænu kaflarnir... jemundur minn eini. Í hvert sinn sem þeir komu langaði mig að leggja bókina frá mér og hætta. Gáfu sögunni ekkert nema tilgerð.
Söguþráðurinn, persónur, leikendur og tengsl milli þeirra voru líka torskilin, samhengislaus og skrítin.
Ef þú ert að hugsa um að lesa þessa bók þá mæli ég eindregið með því að þú endurhugsir þá ákvörðun.
Bókin náði mér ekki eða ég ekki henni. Fjallar um systkini sem missa mömmu sína og hvernig sá atburður er rót allra hörmunga í lífi þeirra. Of ljóðræn fyrir minn smekk. Langar lýsingar á hlutum sem hafa ekki tilgang í sögunni. Sumt þarna sem hefði betur passað í smásagnasafn t.d. allt sem gerist á sjúkrahúsinu. Mér fannst það ekki þjóna tilgangi í persónusköpun Skorra. Fannst líka ekki passa að setja sanna atburði úr nútímanum inn í bókina (hrunið, hælisleitendur, byssumaðurinn). Svekkjandi því ég er svo ánægð með pistlana eftir þennan höfund.
3,5* Það sem mér fannst best við þessa var allt þetta rammíslenska dæmi; lýsingar á matarboðum, menntaskólastemningu, 2007 pre hrunið og háskólamenningu. Mikið af góðum hugvekjum, norræni sársaukinn í sérstöku uppáhaldi. Meikaði ekki alveg þegar Skorri talaði í ljóðum, það var svo ógeðslega tilgerðarlegt.
Góð saga. Skarphéðinn Skorri er vel pirrandi týpa. Það er einhver kraumandi kvikmynda-ára yfir bókinni, hún virðist sköpuð fyrir hvíta tjaldið. Ef það reynist rétt þá er mjög mikilvægt að Alfreð og Sigga verði vel köstuð. Halldór er náttúrulega einn besti pistlahöfundur landsins (í annað sinn í röð sem ég tek það fram í ritdómi, allur trúverðugleiki fyrir bý) þar sem hann er beittur og segir svo rosalega margt í svo stuttu máli. Þess vegna kemur það mér svo mikið á óvart hvað bókin er storyline intensive. Svo birtast þessi Shakespear'ísku harmkvæði eins og skrattinn upp úr sauðalæknum. Kannski grunnhyggið hjá mér; en getur verið að sagan - með öllu sínu baktjaldamakki og sögusviðsflakki - sé afbökun á einhverju leikriti meistarans? Svona 101-Reykjavík-Hamlet pæling? Það væri svo feitt.
"Að vera með sólgleraugu og í góðum gallabuxum að bjástra við að raða troðfullum plastpokum í skottið á jeppanum á föstudegi ... Þessi tilfinning yrði seint metin til fjár. Þegar hann ræsti bílinn eftir slíka heimsókn og stýrði honum mjúklega út af bílastæðinu undir blaktandi Bónusfánanum læddist að honum sá grunur að hæstu tindar tilverunnar risu upp úr nákvæmlega svona andartökum, að þetta gerðist ekki betra, að lífið snerist í raun um þetta, að venjulegur íslenskur heimilisfaðir gæti ekki farið fram á mikið meira en ánægju þess að aka með heilbrigð, móðurlaus börn sín á fallegum, stórum bíl upp í sumarbústað eftir vel heppnaða innkaupaferð ... " Halldór Armand kjarnar tilveruna á nettan, útsmoginn hátt, það eina sem truflaði mig við lesturinn var löngun hans til að vera Sjeikspír. Náði því þó vel á köflum. Skyldulesning.
Ef þú lest bara eina bók í ár- lestu þá þessa! Þetta er fyrsta verk höfundar sem ég les og ég tek svo sannarlega undir með þeim fjölmörgu sem þegar hafa dásamað hana. Hér er margslungin bók sem tekur á svo mörgu í okkar lífi á svo áhugaverðan hátt. Stíll höfundar er mjög góður, orðaforðinn góður en ekki þannig að ég upplifi málfarið uppskrúfað eða tilgerðarlegt heldur þannig að tungumálið sé verkfæri, jafnvel hljóðfæri sem leikur í höndum höfundar. Honum tekst að koma margvíslegum álitamálum og vangaveltum á framfæri án þess að breytast í fjarlægan predikara. Sögusviðið er Ísland (og aðeins út í Evrópu) fyrir rúmum áratug og vísanir í samfélagið eru góðar. Þarna er ást og grimmd, harmleikur, leyndarmál, árekstrar og átök, skörp samfélagsrýni, og spennandi ráðgáta. Ég hlakka til að kynnast verkum höfundar betur og kynna þessa bók fyrir unglingnum mínum.
Yfirburðarithöfundur. Ég held að Íslendingar séu á leið inn í nýja gullöld bókmennta hér á landi. Það er ekki hægt að hafa áhyggjur af íslenskunni þegar upp spretta svona snillingar eins og melgresi úr fjörusandinum.
Halldór heldur manni við efnið allt til enda með spennandi framvindu sem kemur á óvart. Hann nær líka að skapa trúverðugt sögusvið og lýsa mismundandi tíðaranda, ríkjandi gildismati, þannig að maður kinkar kolli og skellir jafnvel uppúr (þótt manni sé ekkert endilega hlátur í hug).
Athafnir helstu söguhetjanna teikna þær vel upp en innra líf þeirra - hugsanir, vangaveltur og afstaða til lífsins og tilverunnar - ljær þeim að auki mikla og sannfærandi dýpt sem birtist einnig í samskiptum þeirra við samferðafólkið. Fyrir vikið spretta persónurnar ljóslifandi fram á sjónarsviðið. Svo margslungnar að lesandinn á oft erfitt með tilfinningar sínar til þeirra. Og stendur alls ekki á sama um afdrif þeirra. Það er firnavel skrifað.
Ég átti í dálítið erfiðu sambandi við hið bundna mál. Það virkaði á köflum eitthvað öfugt á mig og ótrúverðugt. Þetta dró þó ekkert úr heildarupplifuninni sem er mjög jákvæð.
Bróðir er vel skrifuð og eftirminnileg bók sem ég mæli eindregið með. Ég á eftir að lesa fyrri bækur höfundar og vind mér í það við fyrsta tækifæri. Hlakka til næstu.
Einstaklega fallega skrifuð. Flókið samband systkina og sektarkenndar. Hélt mér allan tíman og kom á óvart alveg fram að endi. Eina sem ég gæti sett út á er þessi aukasögumaður, sú sem ætlar að skrifa bókina um Skorra, mér fannst því helst til ofaukið. Mæli með.
Halldór Armand er alveg sérlega flinkur í að flétta saman heimspekilegar og samfélagslegar pælingar við spennandi og óútreiknanlega framvindu. Hörku bók.
Svo ofsalega vel skrifuð saga með mikilli heimspeki, minnti oft á Kundera. Samtölin renna áreynslulaust fram og allur textinn greinilega smíðaður af mikilli natni.