„Það var hvorki lauslæti mitt né skortur á hinu svokallaða móðureðli sem leiddi mig suður í Kópavog. Það var ástin sem gerði það. Þú mátt mín vegna apa flest eftir mér. En þú skalt forðast sambönd.“
Móðir skrifar skrautlega sögu sína til dóttur sinnar. Sögusviðið er Kópavogur, bærinn sem er slys og átti aldrei að verða til, þar sem eru engar vídeóspólur í sjoppunni Video og grill og það er ekki til neins að láta sig dreyma um að hitta einhvern skjaldsvein á Riddaranum.
Þetta er skemmtilega skrifuð bók og mikil frásagnargleði en dálítið subbuleg á köflum. Bókin er kannski ekki alveg fyrir minn aldur (74)og mann sem er ekki á Feisbók og þessháttar miðlum því það eru þarna orðatiltæki og setningar sem ég næ varla að skilja, þarna er annar talsmáti en ég er vanur. Er alveg viss um að ef þessi höfundur heldur áfram þá megum við von á ýmsu í framtíðinni.
Tilfinningin sem ég fékk var sú að höfundur hafi hugsað þetta: Það er alltaf verið að skrifa bækur um Reykjavík en enginn skrifar um Kópavog. Ég ætla að skrifa um Kópavog. Og ég ætla að nefna alla staði í Kópavogi sem fólk þekkir eins og Hamraborg og svona. Og bókin þarf að vera um eitthvað annað, ekki bara Kópavog. Kannski ég reyni að hneyksla sem flesta. Tala um að sjúga typpi og nefni píkur nokkrum sinnum. Þá verður þetta ágæt bók.
Hló mikið. Kaldhæðnin og biturleiki upp á 10. Mjög hrá og flott frumraun. Vil næstum því segja að það hefði mátt fínpússa hana meira en mögulega hefði það skemmt sjarmann yfir henni
Stórskemmtileg, gróf og hnyttin bók. En ég er auðvitað hlutdrægur (pnr. 200). Á sama tíma er hún líka alvarleg og sorgleg, kannski sérstaklega þegar hún er skrifuð á þann hátt að grínast með sorglegu hlutina til að geta viðurkennt þá.
heyrði fyrst af henni því hún vann einhver verðlaun fyrir forvitnilegustu kynlífslýsinguna. hugsaði þá „þetta er bók fyrir mig". þetta var bók fyrir mig.
bókin minnti mig á brauðstangaslúðurþynnkubrunchana okkar sollu á greifanum eftir féló
Ef þig vantar bók til að láta þig gráta, fá samviskubit, hlæja og blóta þá er það þessi bók. Auðveld að lesa á sólahring og ég sé enganveginn eftir þessum lestri.
Hörkufín bók. Hispursleysið fékk mig annaðhvort til að hlæja eða fara hjá mér. Fullt af góðri kómedíu og vel heppnaður talmálsstíll. Kamilla er oft nösk á góðar lýsingar. Það að borða ristað brauð hafi verið einu skýru fyrirmælin sem nýbakaðir foreldrar fá á fæðingar- og vökudeildinni er nokkuð gott. Hún var bókavörður á Hlöðunni þegar ég stundaði námið hvað mest; var hálfpartinn að vona að dúkka sjálfur upp sem nokkur konar auka-aukapersónu. Segi svona.
Hrikalega fyndin og mjög sorgleg saga um ástarsorg og Kópavog, sem virðist hvor tveggja vera álíka þunglyndishvetjandi.
Skemmtilegar lýsingar á Kópavogi eins og þegar segir um Hamraborgina að hún sé að mörgu leyti eins og þrífættur útigangsrakki með skallabletti – skepna sem aumingjagóðu fólki og nánum aðstandendum fer alveg að þykja vænt um á endanum en er ekki og verður aldrei stolt nokkurs manns. Ég hef hins vegar aldrei verið svo illa sett að detta í hug að fara í gönguferð um Smiðjuhverfið!
Það eru líka mörg orð sem hún notar sem ég væri alveg til í að tileinka mér – eins og til dæmis að vera þéttingssama um eitthvað.
Í Kópavogskróniku segir aðalpersónan dóttur sinni frá lífi sínu, aðallega ástarlífi sínu, eins og börn hafi mikinn áhuga á að vita um þann þátt í lífi foreldra sinna. Ástalífið snýst mest um kynlíf með hinum og þessum og þrá eftir ást. Eins og segir í laginu er hún: "looking for love in all the wrong places". Hún virðist ekki bera virðingu fyrir sjálfri sér og því kannski ekki skrýtið að karlmennirnir í lífi hennar geri það ekki heldur. Maður vorkennir samt aðalpersónunni fyrir að ganga illa að finna ástina. Bókin er groddaleg en það er húmor í henni og hún er fljótlesin.
Smellin og skemmtileg frásögn, sem gaman var að. Hispursleysið og groddalegar lýsingarnar voru á köflum fyndnar en þó oft og tíðum svo rosalegar að ekki varð komist kinnroðalaust í gegnum lesturinn í bókstaflegri merkingu. Þrátt fyrir gamansemina og hneykslunargleðina bjó drungi og ömurleiki undir niðri. Blönduðust þessir ólíku fletir frásagnarinnar ágætlega.
Hispurslaus og hressileg frásögn móður af lífi sínu sem hún skráir handa dóttur sinni sem hún virðist að öðru leyti hafa vanrækt. Móðirin lýsir ástarævintýrum, skertri sjálfsmynd og andlegu ofbeldi og ráðleggur dótturinni að varast sambönd en hún er hrifin af Kópavogi.
Las bókina í einum rykk yfir kaffibolla á sunnudegi. Mér fannst hún æði og margt furðulegt sem ég get tengt við. Ég fíla svona karaktera sem eru öðruvísi, kannski af því að ég er svo skrítin sjálf.