Þegar Tvíburaturnarnir hrynja eignast unglingsstrákur í Reykjavík farsíma og kynnist í kjölfarið fyrstu kærustunni. Á sama tíma lendir trommari í vinsælli sveitaballahljómsveit í bílslysi þar sem ung stúlka lætur lífið. Fimmtán árum síðar liggja leiðir þessara tveggja manna saman. Arnmundur er eirðarlaus ungur maður sem notar símann sinn til að komast yfir stelpur í útlöndum og drollar við að skrifa lokaritgerð. Stefán hætti að tromma, varð útrásarvíkingur og rekur nú sprotafyrirtæki sem hann er viss um að geti breytt heiminum. Undir yfirborðinu krauma gömul leyndarmál, vonbrigði og hefndarþorsti.
Sent from my iPhone
Halldór Armand hlaut mikið lof fyrir Vince Vaughn í skýjunum og Drón. Aftur og aftur er áhrifarík og spennandi samtímasaga þar sem venjulegt fólk leitar að ást, hlýju og merkingu í óútreiknanlegum heimi.
Halldór Armand Ásgeirsson (f. 1986) lauk meistaraprófi í lögum við Háskóla Íslands árið 2012 og hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir handritið að fyrstu skáldsögu sinni, Vince Vaughn í skýjunum (2013). Síðan þá hafa komið út Drón (2014), Aftur og aftur (2017), Bróðir (2020) og nú síðast Mikilvægt rusl (2024). Hann hefur einnig sent frá sér esseyjusafnið Við erum bara að reyna að hafa gaman (2022). Bækur hans hafa komið út á fjölda tungumála og pistlar hans um samfélagsleg málefni njóta mikilla vinsælda.
Halldór Armand Ásgeirsson (b.1986) is one of the young, extraordinary voices on the Icelandic literary scene. He completed a master’s degree in law at the University of Iceland in 2012 and received the Greenshots Award for the manuscript of his debut novel, Vince Vaughn in the Clouds (2013). Since then, he has published Drone (2014), Again and Again (2017), Brother (2020), and most recently, Important Trash (2024). He has also released the essay collection We’re Just Trying to Have Fun (2022). His books have been published in several languages, and his essays on social issues are highly popular.
Það er erfitt að koma orðum að því hvað nákvæmlega gerir þriðju bók Halldórs Armand, Aftur og aftur, að jafn heillandi lestri og raun ber vitni. Líklega er það ókyrrðin sem vaknar þegar þú heyrir rödd í fyrsta skipti, en kannast samt við hana og þekkir hana alltof vel. Þessi rödd heyrist ekki í íslenskum bókmenntum, íslenskri tónlist eða listalífi. Hvað þá á hinu pólitíska sviði eða í almannarýmu. Þessi rödd er ómur þýðrar þagnar, rödd þeirra Houllebecqs og Megasar og þeirra fáu sem benda á það að keisarinn er ekki í neinum fötum.
Í Aftur og aftur stígur Halldór inn á þetta svið. Og í þessu tilviki eru það aldamótakynslóðin sem er nakin. Halldór skrifar heiminn eins og hann mætir þessari kynslóð á degi hverjum - ekki eins og hún vill halda að hann sé - út fyrir hellinn og handan bergmálsins. Og það er óþægilegt þegar það rennur upp fyrir manni að tilveran sé endurtekning, án sýnilegs tilgangs. En það er nauðsynlegt, og Aftur og aftur sýnir okkur hvernig mannleg reisn liggur falin í þessari meðvitund.
Heil kynslóð sér sjálfa sig í þeim Arnmundi og Stefáni. Í firringunni, í aftengingunni sem fylgir sítengingunni, í einmanaleikanum og stefnuleysinu á elektrómagnetíska sviðinu. Og það er ótrúlega fallegt að mæta sjálfum sér á þennan hátt. Því er Aftur og aftur ekkert svartagallsraus, heldur falslaus saga til kynslóðar sem veit ekki hvað hún er og vill heldur ekki vita það.
Skilst að það sé vandamál að ungt fólk, og sérstaklega ungir karlmenn, lesi ekki bækur. Hvernig væri að byrja á því að láta þá lesa þessa snilld í skólakerfinu?
Halldór hefur slegið í gegn með frábærum pistlum í fjölmiðlum að undanförnu og þessi bók er klárlega hans besta. Hér er farið yfir allan tilfinningaskalann. Sagan er í senn spennandi, fyndin og sorgleg og lýsir að mínu viti einhverju andrúmslofti sem einkennir margar hliðar nútímans.
Aftur & Aftur inniheldur atburðarrás þar sem líf tveggja manna af mismunandi kynslóðum á Íslandi skarast þegar ungum stúdent er boðinn vinna hjá startup fyrirtæki. Í sögunni er fortíð þessara manna reifuð á sama tíma og frásögnin er stútfull af snilldarlegum pælingum, ekki síst hárbeittri ádeilu á íslenskt samfélag og snjallri samfélagsrýni. Hlutskipti og örlög aldamótakynslóðarinnar kristallast í lífi Armundar sem gengur erfiðlega að fóta sig í einka- og atvinnulífi sínu í Reykjavík.
Bókin er s.s. samtímalýsing sem tekur á mörgum þeim atburðum og tæknibyltingum sem skilgreint hafa internet- og aldamótakynslóðina. Greint er frá stórum og flóknum samfélagsbreytingum og atburðum sem fléttast inn í líf karakteranna. Hér á ég t.d. við hryðjuverkin 11. september 2001, samband ungs fólk við nútímatækni og þeim breytingum sem orðið hafa á lífi þess með tilkomu snjallsíma og samskiptamiðla sem og uppgjör yngri og eldri kynslóða við efnahagshrunið. Þessum hugmyndum, tilfinningum og hvað eina gerir Halldór snilldarleg skil í bókinni.
Í sögunni svífa jafnframt yfir vötnum ýmsar trúar- og heimspekipælingar sem og samanburður við alþjóðasamfélagið sem gefa henni aukna dýpt á sama tíma og henni tekst að vera 100% heiðarleg og einlæg allan tímann. Þetta er okkar Camus og okkar Houellebecq. Það er enginn annar á Íslandi að skrifa neitt svona.
Mæli eindregið með þessari einstöku bók. Þetta er einfaldlega fullt hús stiga.
Við lestur bókarinnar Aftur og aftur, þriðju bókar Halldórs Armand, er hægt að fullyrða að höfundurinn hafi ekki aðeins fest sig í sessi meðal betri ungskálda þjóðarinnar, heldur sem fullþroska höfundur í slagtogi með bestu höfundum landsins. Aftur og aftur er áhugaverð saga, feykilega vel skrifuð, og brýtur tæknivæddan samtímann niður í öreindir áður en Halldór raðar honum upp að nýju svo lesandinn nái loksins, loksins að skynja heildarmyndina.
Bókin er bæði fyndin og snjöll og fær lesandann ítrekað til þess að hugsa. Aðalkarakterarnir tveir, Arnmundur og Stefán Falur, eru afar ólíkir og mér fannst samband þeirra vera heiðarleg og óvæginn lýsing á því hvernig við lifum í dag. Skyldulesning.
Ég hef þegar skrifað langloku um þessa bók sem ég kem til með að birta annarstaðar. Ég er ennþá dálítið að brjóta heilann um hvað mér finnst um hana, sem er gott. Í grunninn er þetta stúdía á tveimur körlum sem fæðast sitthvoru megin við óljós skil: sá yngri elst upp með farsíma og internet sem sjálfsagðan hluta af tilverunni og sá eldri ekki; sá yngri er sáttur við að vera hluti af fjöldanum en sé eldri ekki. Það eru ýmsar flækjur og siðferði- og trúarlegar pælingar oná þetta, og þráður um orðuð og óorðuð samskipti sem mér þykir vel heppnaður.