Önnur Katrínar saga er til í handriti frá 1400-1500, er hluti af helgra meyja sögum. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé einhver vísun í þær, en sé hana ekki, enda aldrei lesið miðaldasöguna.
Í Katrínarsögu Halldóru Thoroddsen er sögð saga sauðanna sem bjölluhljómurinn kallar á. Þeirra sem fylgja kalli tímans inn í hippaskeiðið og vaxa sumir upp úr því en aðrir festast þar og enn aðrir lifa aukaverkanir þess ekki af.
Til að byrja með var ég á báðum áttum, hippatímabilinu hefur verð gerð góð skil, bæði á réttunni og á röngunni. Í fyrstu köflunum endurómuðu margsagðar minningar og mér fannst þeir litlu bæta við þær. En svo urðu hipparnir gamlir, dáðust að pönkinu en sátu þá í vísitölusambandi og vinnu og á eftir að frjálshyggjan tekur við verður allt marksækið og nám er "fjárfesting í framtíðinni." Að endingu sitja gömu hipparnir í stjórnunarstöðum auðvaldis og pönkið rennur út í glamúrin. Þetta síðasta kemur þó ekki fram í sögunni, er bara mín viðbót við sögulega yfirlitið.
Sagan verður áhugaverðari eftir því sem lengra dregur í lestrinum og maður fær að sjá viðhorf hippans til kynslóðanna sem á eftir koma og breytinganna sem verða þegar:
"Hinir síðustu verða fyrstir. Steingervingarnir standa nú með pálmann í höndunum, visinn
pálma sem þarfnast innspýtingar og fær hana, nærist nú á frelsishugmyndum hippanna,
afbökuðum og aðlöguðum: Frelsi án ástar með splunkunýjum goðsögum."
Sjónarhorn sögunnar er að mestu sögumannsins sjálfs. Röddin horfir til baka, hefur yfirsýn, fjarlægð og oft á tíðum hæðinn, kaldranalegan tón og ögn bitran.
"Tímadraugurinn lætur ekki að sér hæða, breiðir slikju yfir allt, jafnvel hinir aumustu sem
fara halloka undir honum samþykkja hann eins og loftslag. Blinduð í þokunni [...]
Draugurinn sækir í andstæðu sína. Eftir hippadóm fyrirskipar hann sturlaða hlutadýrkun,
díónesískt óhóf, svaml í gængtum svo útaf vellur. Réttlætisjarminu heima fyrir svara hann
með grimmu alþjóðlegu þrælahaldi. Hæ gaman!"
Sagan er vel skrifuð og það er auðvelt að trúa sögumanni og að hann hafi upplýsingarnar frá fyrstu hendi. Hann kemur vel á framfæri skuggahliðum hippatímabilsins og hvernig hugsjónirnar renna úr í sandinn. Bjartsýnin sem maður hélt að einkenndi hippahreyfinguna í fyrstu kemur ekki fram hér. Gleði og trú ást og betri heim er horfin undir bitura reynslu horfinna hugsjóna, skuggahliða örfandi efna og andstæðra hugmynda. Trúverðugt yfirlit engu að síður.