Fjörutíu og tveggja ára sjálfstæð fjögurra barna móðir skilur við seinni barnsföður sinn eftir eina erfiðustu ákvörðun sem hún hefur þurft að taka. Tilveran fer á hvolf og hún með.
Bókin 261 dagur er byggð á dagbókarskrifum sem aldrei áttu að verða annað en líflína út úr óbærilega sársaukafullu hugarástandi sem höfundur upplifði í kjölfar sambandsslita við seinni barnsföður sinn árið 2015.
Skrifunum er ætlað að opna inn í heim sársauka og erfiðleika sem fylgt geta sambands- og hjúskaparslitum. Þau eru ekki bara saga Kristborgar heldur margra annarra sem slíkt hafa reynt, enda sorgarferlið sambærilegt hvar í heiminum sem er.
Bókin 261 dagur er að sögn höfundar í grunninn dagbók sem hún skrifaði sem líflínu til að koma sér í gegnum hvern dag eftir sambandsslit, en Kristborg skildi við seinni barnsföður sinn fyrir tæpum þremur árum. Kristborg er starfandi fréttamaður, áður dagskrárgerðarmaður og ritstjóri sjónvarpsþáttar, öflug á samfélagsmiðlum, ástríðubloggari með fátt eitt óviðkomandi og heldur úti Facebook-hópnum „Ertu að skilja og skilur ekki neitt?“
Sagan er skrifuð í nokkrum leturgerðum þar sem hver gerð miðlar áfram ákveðnum þræði; dagbókin sjálf sem er mikið tilfinningaflæði og inni í höfði sögupersónu, rafræn samskipti sem eru uppsett svipað og spjallþráður, og svo skáletraður texti með minningabrotum og söguskýringum. Þetta er vel til fundið og gefur sögunni aukna dýpt.
Vísað er til sögupersóna í texta með lýsandi nöfnum eins og Frumburðurinn, Fyrrverandi, Vonbiðillinn. Sagan hefst 10 dögum fyrir sambandsslit og síðasti kafli er 261 degi síðar. Sagan hverfist um áfall, tilraunir til uppgjörs, taugaáfall, samskipti við ættingja, dapurleg samskipti við heilbrigðiskerfið, vini, börn og barnsfeður en fyrst og síðast um leið sögumanns út úr óbærilegri vanlíðan.
Bjargráðin fær Kristborg frá vinum, en hún er vinamörg, og af netinu, sem leiðir hana á nýjar slóðir. Þar finnur hún andlegan einkaþjálfara sem kennir fólki leiðir til að elska sig, það nám leiðir að lokum til ferðalags til Balí.
Lesningin er erfið til að byrja með en sögupersónan er svo einlægt ákveðin í að vinna sig úr vandanum, greina allt í tætlur, mitt í tilfinningalegu og veraldlegu skipbroti með öllum tiltækum bjargráðum og reynsluna að vopni – íslenska stolta kjarnakonan sem getur allt og ætlar að taka þetta á hnefanum, með húmor, en einnig í núvitund og með aðstoð frk. Tarot.
Skrifin eru mitt í sorginni, á köflum, óþægilega hreinskilnisleg og kómísk: „Andskotinn. Ég er að farast. Er búin að reyna að hanga í einhverri núvitund en hún er fokin út í veður og vind. Hata að hann sé orðinn svona mjór og fitt. Já ég er í ruglinu!“ (Bls. 91)
Maður skyldi halda að þetta erfiða efni sem er til umfjöllunar, missir, sorg, fjárhagsáhyggjur og slíkt, gerði það að verkum að bókin væri endalaust svartnætti en það er ekki svo. Leit Kristborgar að sjálfri sér og útþráin er þroskasaga.
Mitt í sögunni dettur manni í hug að nú hafi höfundur ákveðið að breyta sögunni úr dagbók með úrvinnsluþema í skvísubók – bókakaflar enda oft á þemalagi dagsins og á Spotify er að finna lagalistann 261 dagur. En því fer fjarri, bókin er hreinræktuð raunsaga sem tekur fyrir málefni sem hefur verið tabú að ræða um: áföll við skilnað, sorgarferli og þunglyndi, og hefur fengið umfjöllun sem verðugt innlegg í þau mál.
Í viðtali segir Kristbjörg að bókin hafi fengið góða ritstjórn, efnið sé mikið skorið niður og texti lesinn yfir af lögfræðingi. Er einhver leið að gagnrýna „dagbók“ án þess að fara í manninn? Bókin er of endurtekningasöm, og of löng fyrir vikið. Það væri hægt að gera meira með þessa bók og ef hún verður þýdd á önnur tungumál gæti hún fengið aukna ritstjórn og yrði betri fyrir vikið.
Það er ansi langt síðan einhver bók hefur haldið mér í rúminu fram að hádegi...en þessi gerði það svo sannarlega! Frábær penni þessi stelpa sem gersamlega skrapar af sér skrápinn í frásögn sinni og ekki annað hægt að gera en flissa yfir öllum kjánaskapnum og klikkuðu hugsununum 😆😆😆 Skemmtilega upp sett bók sem heldur manni við lesturinn. "Bara einn kafla enn, svo fer ég að sofa" ...eða ekki 😉
Vá þessi bók! Ótrúlega einlæg og heiðarleg frásögn. Ég sökk í djúpa lægð með höfundinum við lesturinn og það tók tíma að ná sér upp úr henni eftir lesturinn. Ég fílaða hvað Kristbjörg er hreinskilinn í bókinni, ég held að þeir sem skilja munu fíla þessa bók en ekki endilega hinir. Ég fattaði líka meira og meir með þessari bók hvað mér líkar betur að lesa ástarsorgar-bækur fremur en ástarsögur samanber ást mína á Tímaþjófinum eftir Steinunni Sigurðard.