Frábær bók. Skemmtilegt endurlit Sigurðar á eigin unglingsár og Reykjavík 68 kynslóðarinnar. Góðlátleg kaldhæðni tónar textann um ungskáldið sem eldri rithöfundurinn fjallar um. Í þessari vegferð hittum við marga af samtímamönnum Sigurðar og kíkjum á horfin menningarsetur og kaffihof.
Bókin er þó ekki eingöngu minningar, margir kaflarnir snúast um hugrenningar Sigurðar og almenna lífsfílósófíu sem einkennist af sjarmerandi víðsýni og umburðarlyndi. Allt bara hollt og gott.
Margar setningar í bókinni skemmtu mér:
1) "Sá sem heldur að þriðji bekkur sé þriðji bekkur kann ekki óskráðu leikreglurnar...kann ekki dulmálið þar sem þriðji er fyrsti."(56)
2) Pælingar um plötuspilara gamla tímans með mismunandi stillingum, 33 snúninga og svo 45 - versus lestur ljóða eða prósa. "... framvindudrifnar línusögur skulu lesnar á 45, það hefur ekkert upp á sig að lesa þær á 33." (92)
3) "Kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup, langt orð og þungt sem ruddi ótalmörgum styttri orðum út af blaðsíðunni: samtal, friður, ást..." (130)
Ég get haldið lengi áfram upptalningu, en svo verð ég líka að minnast á gamla vini sem ég hitti á þessum blaðsíðum eins og Baudelaire og einu af hans meistarastykkjum "Ölvið ykkur." (152) Nú eða Camus og hugleiðingar um dauðann sem eru auðvitað "ét virkeligt alvorligt filosofisk problem." (172)
Sem sagt hugljúf og skemmtileg lesning. Sigurður lendir í nokkrum stórhríðum þarna og er blautur í lappirnar að biða eftir strætó. Mæli með þessu í skammdeginu.