Sölvi Oddsson er ungur svæfingalæknir sem er í miklum metum á gjörgæsludeild Landspítalans, bæði meðal samstarfsfólks og sjúklinga. Hann helgar sig starfinu og er alltaf reiðubúinn að taka aukavaktir en fjarlægist eiginkonu og börn á merkjavæddu heimili í Garðabæ. Smám saman fer álagið að segja til sín og þegar mörkin milli þess að líkna og valda sársauka taka að dofna verður eitthvað undan að láta.
Ari Jóhannesson er sérfræðingur í lyflækningum og starfar á Landspítala. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2007 fyrir ljóðabókina Öskudagar. Lífsmörk er fyrsta skáldsaga hans, einlæg og margslungin þroskasaga full af andstæðum; gálgahúmor og djúpri alvöru, sælu og sársauka, fjötrum og flugi himbrimans.
Þessi kom mér skemmtilega á óvart! Lýsingar á upplifun aðalpersónunnar að versla á Selfossi voru mjög raunverulegar. Allar lýsingar á Selfossi voru eiginlega spot on.
Áhugaverð skáldsaga og skemmtilegt að lesa um störf spítala frá sjónarhóli læknis. Var orðin efins um að sagan stefndi eitthvað þar sem fleiri og fleiri aukapersónur bættust sífellt við. En stíllinn er skemmtilegur og útúrdúrarnir fróðlegir svo það kom ekki að sök. En svo kom loks að atburðinum sem allt hverfist um. Mér fannst bókin góð og vel skrifuð, með fullt af húmor og myndlíkingum sem glöddu mig. Ég hefði samt mögulega viljað hafa seinni hlutann, úrvinnsluna ef svo má segja, í sama stíl og þann fyrri. Með eins miklum innri lýsingum og smáatriðum byggðum á persónulegri reynslu. En það hefur augljóslega verið erfitt án sambærilegrar upplifunar.