Óli Sóleyjarson's Reviews > Umsátrið - Fall Íslands og Endurreisn

Umsátrið - Fall Íslands og Endurreisn by Styrmir Gunnarsson
Rate this book
Clear rating

by
9377684
's review
May 11, 2012

did not like it
Read in December, 2009

Umsátrið: Moggalygin um fall Íslands og endurreisn

Ég var töluvert forvitinn að lesa Umsátrið eftir Styrmi Gunnarsson fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ég vildi kynnast hugarheimi þessa manns og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Mér varð fljótt ljóst að við Styrmir höfum ekki búið í sama landi síðustu árin – jafnvel aldrei. Þetta kemur vel fram þegar ritstjórinn reynir að lýsa viðhorfum sem hann telur að hafi verið almenn eða útbreidd þá kannast ég oft ákaflega lítið við þau - hvorki úr vinahópum né fjölskyldu. Bók Styrmis er vel skrifuð og auðlæsileg. Það kemur þó væntanlega ekki á óvart frá manni sem hefur starfað við blaðamennsku í marga áratugi. Umfjöllunarefni Styrmis er fyrst og fremst aðdragandi bankakreppunnar, eftirmál hennar, stjórnmálaástandið og framtíðarsýn hans.

Ég velti reglulega fyrir mér titli Styrmis þegar á lestrinum stóð, enda passar hann illa við efnið. Það sem við sjáum þar er fyrst og fremst lýsing á heimagerðum vanda Íslendinga. Vissulega finnur Styrmir nokkra erlenda óþokka en maður getur ekki betur séð en að þeir í versta falli nýti sér einungis heimsku og græðgi heimamanna sem hvort eð er hefðu náð að klúðra sínum málum illa. Þegar Styrmir lýsir því hvernig umheimurinn snýr baki við Íslendingum þá verður það í raun ósköp skiljanlegt þegar litið er á forsöguna.

Það sem er sérstaklega vel gert í bók Styrmis að mínu hógværa óviðskipta- og óhagfræðimenntaða mati er hvernig hann lýsir því hvað var að gerast innanbúðar í bankakerfinu og hvaða utanaðkomandi aðstæður höfðu áhrif þar á. Þar átti ég þó stundum erfitt með að átta mig á hvaða milljarðar þurftu að fara hvert og þá hvers vegna. Ég velti stundum fyrir mér hvort að skýringamyndir hefðu gert meira gagn en hreinn texti einn og sér. En þetta eru flókin mál og því ekkert skrýtið að það sé erfitt að setja þetta fram á einfaldan máta.


Úrelt Icesve-umræða

Icesave-málið fær töluverða umfjöllun í bókinni en það er ekki mikið á henni að græða þar sem hún er þegar orðin úrelt. Þeir sem lesa hana þegar lengra dregur frá málinu eiga eftir að fá töluvert skakka mynd af málalokum þess. En það eru líka skekkjur í umfjöllun Styrmis á fyrri hluta málsins. Afgreiðsla hans á hlut ríkisstjórnar Geirs H. Haarde á Icesave er skammarlega lítil og virðist höfundur vona að sá þáttur málsins gleymist. Ekki er minnst á hvernig því máli var fyrst komið í gegnum Alþingi eða þegar Geir H. Haarde þakkaði Bretum fyrir að borga út innistæðurnar. Svipaða sögu má segja um neyðarlögin sem hefðu að ósekju mátt fá töluverða umfjöllun.

Það er margt í bókinni sem minnir á Moggalygina. Skilgreiningin á henni felst í því að Mogginn segi ekki alltaf beinlínis ósatt heldur ljúgi með þögninni. Ef það stendur ekki í Mogganum þá er það ekki til. Það er svo margt sem er ekki fjallað um í bókinni eða afgreitt á yfirborðskenndan hátt. Eins og við er að búast snýr margt af því að Davíð Oddssyni. Það sést vel þegar rætt er um Icesave málið að hvergi er minnst á alræmt viðtal Davíðs við bresku sjónvarpsstöðina Channel 4, þar sem hann segir að ef svo ótrúlega ólíklega færi að sterku íslensku bankarnir færu á hausinn þá gæti íslenska ríkið borgað innistæðurnar þeirra ef það bara vildi, enda væri það svo vel statt. Söguskýring Styrmis af Davíð í hlutverki Kassöndru sem varar alla við en enginn hlustar á hefði væntanlega ekki staðist tilvitnun í það viðtal.

Í þeim alltof stuttu köflum sem fjalla um einkavæðingu bankanna er skautað framhjá allri forsögunni og þeim vafasömu einkavæðingum sem áður höfðu verið framkvæmdar. Davíð Oddsson fær ekki hlutverk geranda í þeim málum heldur virðist hann vera leiksoppur utanaðkomandi áhrifa. Styrmir viðurkennir fúslega að sala Búnaðarbankans hafi verið pólitísk en á móti er salan á Landsbankanum til Bjöggana sett fram sem einhvers konar nauðsyn.


Við og hinir

En það er reyndar oft sem Styrmir virðist setja málin fram á þann hátt að hann afsaki hegðun Sjálfstæðismanna með því að vísa í að aðrir stjórnmálamenn hafi verið jafn slæmir eða verri. Þetta sést ágætlega í sögu sem hann segir af Bjarna Benediktssyni hinum eldri sem þaggaði niður í gagnrýni Framsóknarmanna á stöðuveitingum með því að halda ræðu um hvernig þeir hefðu sjálfir komið fram í slíkum málum. Þegar Styrmir vogar sér að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fylgir oftast einhver álíka saga um gerðir annarra flokka.

Af Vinstri grænum segir Styrmir lítið, enda myndi það spilla þeirri söguskoðun að enginn hefði sagt eða gagnrýnt neitt. Steingrímur J. Sigfússon sprettur fram formálalítið í október 2008 í vafasamri sögu frá Geir H. Haarde um að formaðurinn hafi sagt að VG kynni nú að skipuleggja mótmæli (sem allir sem hafa tekið þátt í mótmælum tengdum flokknum vita að er lygi – VG kann einmitt ekki að skipuleggja víðtæk mótmæli). Styrmir leggur þó blessunarlega engan trúnað á sögurnar um að mótmæli vegna bankahrunsins hafi verið skipulögð af VG og bendir réttilega á að hér hafi verið miklu dýpri alda á ferðinni. Þótt Styrmir hafi lært af biturri reynslu að trúa ekki öllu sem viðskiptamenn segja honum þá finnst manni á köflum að hann mætti efast meira um það sem samflokksmenn hans segja.

Í lok bókarinnar talar Styrmir um framtíðarsýn sína. Hann vill opið samfélag þar sem allt er uppi á borðum. Sú sýn er í hróplegu ósamræmi við það sem á undan er komið þar sem við sjáum Styrmi í hlutverki baktjaldamakkarans. Sögurnar sem hann segir af því hvernig hann ræðir hin og þessi mál við bæði banka- og stjórnmálamenn án þess að slíkt rati á síður Morgunblaðsins fengu mig oft til að hugsa: Finnst þeim þetta í alvörunni hafa verið allt í lagi? Hann talar oft um afstöðu Morgunblaðsins til hinna og þessara mála en þó nefnir hann ekki stuðning blaðsins við einkavæðingu ríkisfyrirtækja, enda myndi slíkt ekki passa við þá mynd sem er verið að mála. Það er um leið skemmtilegt að fylgjast með því hvernig Styrmir gerir það sem hann getur til að forðast að nefna aðra fjölmiðla á nafn. Eiginlega er það bara krúttlegt. Ritdómari hló líka upphátt þegar Styrmir lýsti því hve opið Morgunblaðið er fyrir aðsendum greinum, hafandi sjálfur lent í endalausu basli með slíkt sjálfur enda ekki með skoðanir þóknanlegar stefnu blaðsins.

Þessi bók hentar örugglega vel sem jólagjöf handa öllum sem hafa verið sáttir við að fá heimssýn sína uppskrifaða á síðum Morgunblaðsins. Við sem ekki tilheyrum þessum hópi getum fyrst og fremst fengið það sem ég vonaðist til að fá, innsýn í hugarheim Styrmis Gunnarssonar. Þarna er maður sem tilheyrði að eigin sögn valdakjarnanum sem byggði upp það kerfi sem hrundi í október á síðasta ári. Það er ekki slæmt í sjálfu sér. Ef við lítum lengra þá er ljóst að þetta er afleit bók fyrir sagnfræðinga og grúskara framtíðarinnar ef þeir hafa ekki þeim mun betri skilning á bakgrunni þeirra atburða og manna sem hér er um rætt.
flag

Sign into Goodreads to see if any of your friends have read Umsátrið - Fall Íslands og Endurreisn.
Sign In »

No comments have been added yet.